Handbolti

Snorri verður með heimsliðinu í Kaíró

Snorri Steinn fer nánast beint úr flugvélinni og inn á völlinn í Kaíró á sunnudaginn
Snorri Steinn fer nánast beint úr flugvélinni og inn á völlinn í Kaíró á sunnudaginn AP

Landsliðsmaðurinn Snorri Steinn Guðjónsson ætlar leggja á sig mikið ferðalag um helgina til að spila með heimsliðinu í handbolta.

Snorri var fyrir mánuði valinn í heimsúrval handboltamanna ásamt Ólafi Stefánssyni sem mætir landsliði Egypta í leik sem spilaður er í tilefni af 50 ára afmæli egypska handknattleikssambandsins.

Snorri fékk fljótlega grænt ljós á að spila leikinn frá forráðamönnum GOG í Danmörku, en vegna þess hve langt ferðalag hann átti fyrir höndum var ekki fullvíst hvort hann næði að taka þátt í leiknum. Vísir hefur nú eftir öruggum heimildum að Snorri muni slá til.

Hann þarf að leggja á sig mikið og erfitt ferðalag til að ná í leikinn ásamt félaga sínum Steinari Ege, sem er markvörður norska landsliðsins og FCK í Kaupmannahöfn.

Snorri leggur af stað frá Damörku og flýgur til Kaíró aðfararnótt sunnudagsins og verður ekki kominn á staðinn fyrr en um klukkan þrjú síðdegis. Leikurinn er svo spilaður klukkan 19 um kvöldið.

Fastlega er reiknað með því að Ólafur Stefánsson muni líka mæta til leiks, en Ólafur hefur ekki gert mikið af því að spila með heimsliðinu þó hann hafi áður hlotnast sá heiður að vera valinn í það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×