Handbolti

Karlarnir sækja í sig veðrið í Danmörku

Snorri Steinn Guðjónsson leikur með GOG í Danmörku
Snorri Steinn Guðjónsson leikur með GOG í Danmörku

Danska handknattleikssambandið var mjög ánægt þegar nýjustu áhorfendatölur voru birtar í úrvalsdeildinni í handbolta þar í landi. Karlaboltinn er þar í góðri sókn og er farinn að ógna yfirburðum kvennaboltans undanfarin ár.

Áhorfendafjöldi á leiki í karladeildinni hefur þannig aukist um 14% frá því á síðustu leiktíð og þar mæta 1329 manns á leik að meðaltali - upp frá 1169 á síðustu leiktíð.

Konurnar trekkja þó enn talsvert fleiri áhorfendur á völlinn en karlarnir og þar hefur áhorfendafjöldi farið upp um eitt prósent frá því á síðustu leiktíð. 1436 manns mæta á leiki í kvennadeildinni að meðaltali á móti 1416 á síðustu leiktíð.

Í karlaflokki eru það AaB (2492) og Skjern (2226) sem fá flesta áhorfendur að meðaltali, en í kvennaflokki trekkir Aalborg DH til sín 3501 áhorfanda að meðaltali á hvern leik. Mesta aukningin í áhorfendafjölda var hjá kvennaliði GOG þar sem meðalfjöldinn rauk úr 867 í fyrra upp í 1952 áhorfendur nú.

"Það er mjög ánægjulegt að sjá hvað karlaboltinn hefur verið að sækja í sig veðrið undanfarið og það ber vott um það góða starf sem er verið að vinna í kring um klúbbana. Konurnar hafa jú verið einráðar hér í landi undanfarið, en það er mjög gott að sjá að þær eru enn að bæta við sig en ekki að standa í stað," sagði talsmaður danska handknattleikssambandsins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×