Handbolti

Naumur sigur FCK á HK

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ragnar Hjaltested skoraði fjögur mörk fyrir HK í dag.
Ragnar Hjaltested skoraði fjögur mörk fyrir HK í dag.
HK tapaði í dag fyrir FCK frá Danmörku, 26-24, í fyrri leik liðanna í EHF-bikarkeppninni í handbolta í Digranesi.

HK-ingar byrjuðu skelfilega í leiknum og var staðan eftir stundarfjórðung 10-2, Dönunum í vil. Þeim tókst þó að rétta aðeins úr kútnum og var staðan í hálfleik 15-11 fyrir FCK.

Allt annað var að sjá til liðs HK í síðari hálfleik en strax eftir fjórar mínútur var munurinn orðinn tvö mörk, 16-14. FCK gaf aftur í en HK-ingar létu ekki segjast og tókst að jafna metin þegar tíu mínútur voru eftir, 23-23.

Mikil spenna hljóp í leikinn eftir það og fékk HK sín tækifæri til að komast yfir. En FCK reyndist sterkara á lokasprettinum og skoraði þrjú mörk gegn einu á síðustu tíu mínútunum.

Egidijus Petkevicius átti góðan leik í marki HK og varði sautján skot. Steinar Ege varði fimmtán skot í marki FCK en markahæstur hjá Dönunum var Anders Christensen með átta mörk.

Arnór Atlason lék ekki með FCK vegna meiðsla.

Mörk HK: Ólafur Bjarki Ragnarsson 5, Ragnar Hjaltested 4, Sergey Petraytis 4, Gunnar Steinn Jónsson 4, Augustas Strazdas 4, Tomas Eitutis 2, Árni Björn Þórarinsson 1.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×