Davíð Þór Viðarsson segir í samtali við Folkbladet í Norrköping að hann vilji ganga til liðs við félagið.
Hann æfði með félaginu fyrir tveimur vikum en hefur þó ekkert heyrt frá Norrköping. „Það er samt áfram áhugi fyrir hendi," sagði Davíð Þór. „Ég var í Norrköping meira til að skoða aðstæður og leist mér vel á. Það eru nokkur félög sem hafa líka áhuga á mér en ég vil fara til Norrköping," sagði hann.
Davíð Þór á enn tvö ár eftir af samningi sínum við bikarmeistara FH. Hann hefur ekki trú á að samningaviðræður félaganna eigi eftir að vera erfiðar.
„Við erum ekki að tala um einhverja tugi milljóna. Ég er ekki svo mikils virði," sagði hann og hló.