Íslenski landsliðsmaðurinn Gunnar Heiðar Þorvaldsson hefur skorað sitt fyrsta mark fyrir norska liðið Våleranga. Gunnar skoraði síðara mark liðsins í 2-0 sigri á Fredrikstad í norsku úrvalsdeildinni í kvöld.
Våleranga komst yfir í leiknum í kvöld strax á fyrstu mínútu en Gunnar Heiðar bætti við öðru marki tíu mínútum síðar þegar hann skoraði af stuttu færi.
Gunnar kom til Våleranga fyrir tæpum mánuði síðan á lánssamningi frá þýska úrvalsdeildarliðinu Hannover 96. Fyrir hjá liðinu er landsliðsmarkvörðurinn Árni Gautur Arason en hann lék í markinu í kvöld.
Våleranga er í 6. - 7. sæti norsku úrvalsdeildarinnar með þrjátíu stig en 21. umferð er lokið. Brann er í efsta sæti með 45 stig og sex stiga forskot á Stabæk sem er í öðru sætinu.