Verðbólga mældist 6,5 prósent í Kína í síðasta mánuði samanborið við 5,6 prósent í mánuðinum á undan, samkvæmt kínversku hagstofunni. Verðbólga hefur ekki mælst hærri þar í landi í áratug. Snarpar verðhækkanir á kjötvöru á árinu leiða verðbólguna.
Breska ríkisútvarpið bendir á að verð á kjöti hafi hækkað um 49 prósent á árinu, ekki síst svínakjöti. Mjög hefur dregið úr framleiðslu þess vegna sjúkdóma sem herja á kínversk svín.
Seðlabanki landsins hefur gert hvað hann getur til að bregðast við ástandinu, og meðal annars hækkað stýrivexti fjórum sinnum.
Gengi hlutabréf lækkaði talsvert í Kína í kjölfar birtingar verðbólgutalnanna en CSI-vísitalan í kauphöllinni í Sjanghæ féll um 4,7 prósent við lokun markaða þar í landi í dag, að sögn Bloomberg.