Spænska liðið Sevilla er komið í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu eftir 4-1 sigur á AEK Aþenu í kvöld. Sevilla réði lögum og lofum í leiknum eins og úrslitin bera með sér en þetta var síðari leikur þessara liða í forkeppni Meistaradeildarinnar. Sevilla vann samtals úr báðum leikjum 6-1.
Leikurinn átti að fara fram í síðustu viku en honum var frestað vegna andláts Antonio Puerta. Sevilla verður í H-riðli Meistaradeildarinnar með Arsenal, Steau Búkarest og Slavíu Prag.
Luis Fabiano skoraði tvö mörk fyrir Sevilla í kvöld en hin mörk liðsins skoruðu Seydou Keita og Alexander Kerzhako. Rivaldo minnkaði muninn fyrir AEK undir lokin með marki úr vítaspyrnu.