Fundur vaxtaákvörðunarnefndar japanska seðlabankans hófst í morgun. Fyrir lá að hækka stýrivexti bankans en sérfræðingar telja hræringar á alþjóðlegum hlutabréfamarkaði draga úr líkum að af því verði.
Seðlabankinn hefur hækkaði stýrivexti tvívegis frá síðasta ári, síðast í febrúar, og standa þeir nú í 0,5 prósentum. Í sex ár á undan höfðu þeir staðið í núlli en þeir voru núllstilltir í efnahagslægð sem gekk yfir Asíu fyrir sjö árum.
Áður en samdráttur á fasteignalánamarkaði olli niðursveiflu á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum töldu greinendur líkur á að seðlabankinn myndi hækka vexti til að draga úr verðbólgu í landinu. Litlar líkur eru nú á því, að sögn fréttastofunnar Associated Press sem telur til að órói á fjármálamörkuðum hafi sett mikið álag á japanska fjárfesta og vogunarsjóði auk þess sem útflutningur frá Japan til Bandaríkjanna geti orðið fyrir skakkaföllum verði stýrivextir hækkaðir.