Forsvarsmenn bandaríska hlutabréfamarkaðarins Nasdaq hvetja hluthafa í norrænu OMX-kauphallarsamstæðunni til að halda að sér höndum þrátt fyrir að kauphöllin í Dubaí hafi lagt fram hærra yfirtökutilboð í norræna markaðinn í dag.
Kauphöllin í Dubaí lagði fram tilboð upp á fjóra milljarða bandaríkjadala, jafnvirði rúmra 270 milljarða íslenskra króna, í OMX-samstæðuna í morgun. Samstæðan rekur kauphallir víða á Norðurlöndunum, þar á meðal hér, og í Eystrasaltsríkjunum.
Fréttastofa Reuters hefur eftir forsvarsmönnum Nasdaq að þótt tilboð kauphallarinnar í Dubaí hljóði upp á 300 milljónir bandaríkjadala meira en Nasdaq hafi boðið þá ættu hluthafar að standa óhaggaðir og vísa til þess að þegar samruni kauphallanna gangi í gegn fái þeir 28 prósent í sameinuðu félagi. Þá er sömuleiðis stefnt að því að skera niður kostnað um 150 milljónir dala á ári gangi samruninn í gegn, að þeirra sögn.
Þá hefur Reuters eftir forsvarsmönnum Nasdaq að þeir eigi í viðræðum við stjórn OMX-samstæðunnar vegna tilboðsins.