Samdrátturinn á bandarískum fasteignamarkaði hefur skilað sér í því að nýbyggingum hefur snarfækkað og hafa þær ekki verið með minna móti í áratug. Útgáfa nýrra byggingarleyfa hefur ekki verið með minna móti í ellefu ár. Fjöldi byggingarleyfa þykir ágæt vísbending um komandi tíð, sem er ekki björt, að mati greinenda.
Samkvæmt nýútgefnum tölum bandaríska viðskiptaráðuneytisins fækkaði nýbyggingum um 6,1 prósent á milli mánaða. Þetta er talsvert meiri samdráttur en reiknað hafði verið með. Á sama tíma varð 2,8 prósenta samdráttur í útgáfu nýrra byggingaleyfa. 1,37 milljónir leyfa hafa verið gefin út í Bandaríkjunum á árinu og hafa þau ekki verið jafn fá síðan árið 1996.
Breska dagblaðið Guardian hefur eftir greinendum að tölur um samdrátt á útgefnum byggingaleyfum sýni að enn geti hallað undan fæti á fasteignamarkaði í Bandaríkjunum og sé útlit fyrir frekari niðursveiflu hjá byggingaverktökum vestanhafs, ekki síst í suðurhluta Bandaríkjanna en þar hefur mesta samdráttarins gætt á fasteignamarkaði upp á síðkastið.