Luiz Inacio da Silva, forseti Brasilíu, ætlar sér að skipta um ráðherra flugmála vegna slyssins sem varð þar í landi í síðustu viku. Nærri 200 manns létu lífið þegar farþegaþota rann útaf flugbraut á flugvellinum í Sao Paulo og hafnaði á bensínstöð.
Nelson Jobim, fyrrum hæstaréttardómari, mun taka við embætti varnarmálaráðherra, en varnarmálaráðuneytið er yfir flugmálum í Brasilíu.
Waldir Pires mun láta af embætti varnarmálaráðherra eftir að tvö mjög alvarleg flugslys áttu sér stað á síðastliðnu ári. Þá hefur mikil óreiða verið í flugmálum í landinu en flugumferðarstjórar hafa farið í fjölmörg verkföll vegna óánægju með laun og vinnutíma.