Bandarísk- þýski bílaframleiðandinn DaimlerChrysler ætlar að fresta birtingu uppgjörs fyrirtækisins fyrir annan ársfjórðung fram til loka ágúst. Upphaflega stóð til að birta uppgjörið 26. júlí næstkomandi. Ástæðan fyrir töfunum er sala á meirihluta í Chrysler-armi fyrirtækisins til bandaríska fjárfestingafélagsins Cerberus Capital Management.
Í tilkynningu sem bílarisinn, sem er sá fimmti umsvifamesti í heimi, sendi frá sér í dag, kemur fram að ástæðan fyrir töfunum sé erfiður aðskilnaður á bókhaldi samstæðunnar.
Þrátt fyrir þetta er gert ráð fyrir að bráðabirgðatölur um afkomuna verði birtar 25. júlí, að því er segir í tilkynningunni.