Tuttugu og tveggja ára gamall maður hoppaði ofan af 20 metra hárri brú í Gautaborg aðfararnótt sunnudags og lést í kjölfarið. Rokktónleikar voru við annan enda Göta - Älv brúarinnar og voru nokkrir sem léku sér að því að stökkva niður af brúnni á meðan á þeim stóð. Maðurinn ætlaði ásamt félaga sínum að hoppa niður en félaginn hætti við á síðustu stundu.
Mikill fjöldi hvatti félagana áfram og hinn tuttugu og tveggja ára lét sig vaða. Þegar hann síðan kom ekki upp á yfirborðið aftur var kallað eftir björgunaraðstoð. Kafarar náðu manninum upp eftir sjö til átta mínútur og komu hjartslættinum af stað. Maðurinn var fluttur á Sahlgrenska sjúkrahúsið en lést seint á sunnudagskvöld.
Atvikið var tekið upp á síma og hefur lögregla myndbandið undir höndum.