Hjörtur Magni Jóhannsson Fríkirkjuprestur telst ekki hafa brotið siðareglur Prestafélags Íslands með ummælum sínum um Þjóðkirkjuna. Hjörtur fagnar úrskurðinum og því að deiluaðilar eru hvattir af siðanefndinni til að takast á opinberlega.
Átta þjóðkirkjuprestar kærðu séra Hjört Magna prest í Fríkirkjunni í Reykjavík í mars síðastliðnum fyrir ýmis ummæli í ræðu og riti um þjóðkirkjuna og afstöðu hennar til einstakra málefna. Ummæli Hjartar komu meðal annars fram í fréttaskýringarþættinum Kompási, blaðagreinum og predikunum.
Niðurstaða siðanefndar er skýr - Hjörtur er sýknaður. Í úrskurðinum tekur siðanefndin undir sjónarmið þjóðkirkjuprestanna um að Hjörtur hafi gengið heldur hart fram í gagnrýni sinni og að rangfærslur hafi verið í málflutningi hans. Meðal annars er hnýtt í að Hjörtur hafi notað hugtök eins og ríkiskirkju. Í úrskurðinum segir æskilegt að kærendur hefðu svarað harðri gagnrýni Hjartar á opinberum vettvangi.