Stjórnir bandarísku fjölmiðlasamsteypanna Dow Jones & Co. og News Corporation, sem er í eigu ástralska auðkýfingsins Ruperts Murdoch, eru sögð hafa komist að samkomulagi sem tryggir ritstjórnarlegt sjálfstæði bandaríska dagblaðsins Wall Street Journal. Með því er stærstu hindruninni fyrir yfirtökutilboði Murdochs í Dow Jones & Co. velt úr vegi.
Dow Jones & Co. er móðurfélag samnefndrar fréttaveitu og gefur meðal annars út dagblaðið Wall Street Journal. Félag Murdochs gerði fimm milljarða dala yfirtökutilboð í félagið í byrjun síðasta mánaðar en Bancroft-fjölskyldan, sem fer með ráðandi hlut í Dow Jones, var mótfallin tilboðinu.
Fréttastofan Associated Press hefur eftir heimildamanni sínum að nánari útlistanir á samkomulaginu liggi ekki fyrir. Eigi yfirtökutilboðið að ganga í gegn verður Bancroft-fjölskyldan að samþykkja það.
Tilboð Murdochs, sem var lagt fyrir í byrjun maí, hljóðaði upp á 60 dali á hlut en það var 65 prósentum yfir meðalgengi í félaginu áður en það var lagt fram. Gengi bréfa í Dow Jones & Co. hafa stigið hratt upp síðan og standa nú í 58,77 dölum á hlut.