Fótbolti

Getafe íhugar að kæra Real Madrid

NordicPhotos/GettyImages

Forráðamenn spænska knattspyrnufélagsins Getafe eru að íhuga að kæra Real Madrid til knattspyrnusambandsins þar í landi ef það sannast að stórliðið hafi gert drög að samningi við þjálfarann Bernd Schuster um að taka við stórliðinu á næstu leiktíð.

Þýskir fjölmiðlar greindu frá því fyrir nokkrum vikum að Schuster hefði gert samning við Real á bak við tjöldin um að gerast þjálfari liðsins á næstu leiktíð. Þetta gerðist þegar allt var upp í loft milli forráðamanna Real og Fabio Capello þegar sýnt þótti að hann yrði ekki áfram hjá félaginu.

"Ef sannað þykir að samkomulag hafi verið gert milli Schuster og Real Madrid munum við kæra Real til bæði evrópska- og alþjóða knattspyrnusambandsins. Menn komast ekki upp með að ráðskast svona með Getafe. Mér skilst að samningur milli þessara tveggja aðila hafi verið gerður í kring um páskana og við munum reyna allt sem í okkar valdi stendur til að komast að niðurstöðu í málinu. Ef einhver sýnir okkur svona vanvirðingu - er hann orðinn óvinur okkar að eilífu," sagði Angel Torres, forseti Getafe.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×