Lögreglan í Connecticut í Bandaríkjunum fann í gær 15 ára unglingsstúlku sem hvarf fyrir tæpu ári. Stúlkan var enn á lífi en töluvert þjökuð. Henni hafði verið haldið í gíslingu í litlu herbergi undir stiga á heimili pars sem foreldrar stúlkunnar þekktu.
Stúlkan hafði nokkrum sinnum reynt að strjúka að heiman áður en hún hvarf sporlaust í júní í fyrra. Parið er nú í haldi lögreglu auk þriðja manns sem er einnig sagður hafa búið í húsinu. Stúlkan var föl og tekin þegar lögregla fann hana og gekkst þegar undir læknisskoðun. Ekki hefur verið gefið upp hvort hún var beitt ofbeldi í prísundinni.