Bandaríska fjármálaeftirlitið hefur óskað eftir gögnum um síðasta ársuppgjör bandaríska bílaframleiðandans General Motors. Fyrirtækið segir að búist hafi verið við þess að eftirlitið myndi óska eftir gögnunum.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem eftirlitið knýr dyra hjá bílaframleiðandanum en fyrr á þessu ári fór það fram á gögn vegna tafa á birtingu ársuppgjörsins hjá General Motors.
General Motors hefur unnið að mikill hagræðingu í rekstri síðan í fyrra en þá tapaði fyrirtækið tveimur milljörðum bandaríkjadala, jafnvirði 124 milljarða íslenskra króna. Félagið skilaði hins vegar hagnaði upp á 950 milljónir dala, jafnvirði 59 milljarða króna, á fyrstu þremur mánuðum þessa árs.
Gengi bréfa í bílaframleiðandanum lækkaði um rúmt prósent á markaði í Bandaríkjunum eftir að greint var frá rannsókn fjármálaeftirlitsins og stendur það nú í 30,98 dölum á hlut.