Ryan Giggs, leikmaður Man. Utd., segir ómögulegt að spá fyrir um hver muni standa uppi sem sigurvegari í Meistaradeild Evrópu í ár. Giggs hallast þó frekar að sigri AC Milan gegn Liverpool, þar sem leikmenn ítalska liðsins þrái ekkert heitar en að ná fram hefndum frá því í Istanbúl fyrir tveimur árum.
Giggs og félagar biðu í lægri hlut fyrir Milan í undanúrslitunum og segist Giggs hafa fundið fyrir löngun leikmanna ítalska liðsins til að leiðrétta það sem miður fór hjá liðinu í úrslitaleiknum frá því fyrir tveimur árum.
“AC Milan trúir því ekki ennþá að þeir hafi tapað úrslitaleiknum í Istanbúl í vítaspyrnukeppni eftir að hafa verið þremur mörkum yfir í hálfleik. Það sem drífur leikmenn áfram í dag er löngunin til að bæta það upp sem gerðist í Istanbúl. Það er mikið hungur í herbúðum liðsins og gerir liðið illviðráðanlegt,” segir Giggs.