Þrír evrópskir bankar undir forystu Royal Bank of Scotland hafa gert 96,4 milljarða dala, 6.163 milljarða íslenskra króna, fjandsamlegt yfirtökutilboð í hollenska bankann ABN Amro. Inni í tilboðinu er tilboð í LaSalle, banka ABN Amro í Bandaríkjunum, sem breski bankinn Barclays gerði skilyrði um að yrði seldur í tilboði sínu.
Til samanburðar hljóðaði yfirtökutilboð Barclays í ABN Amro upp á 90 milljarða dali, jafnvirði 5.754 milljarða íslenskra króna.
Bankarnir þrír eru, auk Royal Bank of Scotland, spænski bankinn Santander og belgíski bankinn Fortis. Meta þeir LaSalle á jafnvirði 24,5 milljarð dala, 1.566 milljarða íslenskra króna.
Til stóð að Bank of America keypti LaSalle fyrir 21 milljarð dala, rúma 1.342 milljarða íslenskra króna, en hollenskur dómstóll bannaði söluna í síðustu viku á þeim forsendum að hluthafar ABN Amro yrðu fyrst að samþykkja hana.