Svekktur stuðningsmaður AC Milan sýndi vilja sinn í verki í gær og setti markvörðinn Dida á uppboð á netinu í gær eftir að honum þótti brasilíski markvörðurinn ekki standa sig nógu vel í fyrri leiknum gegn Manchester United í undanúrslitum Meistaradeildarinnar á dögunum.
Dida var hetja Milan árið 2003 þegar hann tryggði Milan sigur á Juventus í úrslitaleik Meistaradeildarinnar, en það er nú allt gleymt - í það minnsta hjá þessum stuðningsmanni. Uppboðið vakti mikla athygli, en þó var dræmur áhugi á markverðinum á netinu því hæsta tilboð í hann hljóðaði upp á um 71 evru. Dida þótti eiga sökina á fyrsta og síðasta marki Manchester United í 3-2 sigrinum á Milan á dögunum.