Manchester United lagði AC Milan 3-2 í frábærum fyrri undanúrslitaleik liðanna í Meistaradeild Evrópu í kvöld. Ítalska liðið komst í 2-1 í fyrri hálfleik en Wayne Rooney tryggði enska liðinu dýrmætan sigur með marki í uppbótartíma.
Manchester United átti sannkallaða draumabyrjun í leiknum þegar Cristiano Ronaldo kom liðinu yfir á fimmtu mínútu með laglegum skalla sem Dida markvörður sló í netið. Heimamenn virtust ætla að taka öll völd á vellinum eftir það, en Milan-liðið sýndi sína alkunnu seiglu og náði að komast yfir fyrir hlé. Það var brasilíski snillingurinn Kaka sem jafnaði leikinn á 22. mínútu og var svo aftur á ferðinni á þeirri 37. Útlitið því orðið ansi dökkt fyrir heimamenn, þar sem síðari leikurinn fer fram á San Siro í Mílanó.
Manchester United kom ákveðið til síðari hálfleiksins og Wayne Rooney jafnaði leikinn verðskuldað á 59. mínútu. Greinilegt var að ítalska liðið ætlaði að reyna að halda jöfnu eftir þetta og það hefði tekist ef ekki hefði verið fyrir glæsilega skyndisókn United-manna þegar komið var fram yfir venjulegan leiktíma. Ryan Giggs átti þá góða sendingu inn fyrir vörnina á Wayne Rooney, sem hamraði boltann á nærstöngina og skoraði hjá Dida. Niðurstaðan því gríðarlega mikilvægur sigur fyrir enska liðið, en ljóst er að þetta einvígi er hvergi nærri búið og verður síðari leikurinn mjög áhugaverður í Mílanó 2. maí.