Innlent

Segir fátt koma í veg fyrir álver í Helguvík

Fátt kemur í veg fyrir byggingu álvers í Helguvík eftir undirritun orkusamnings í gær segir bæjarstjórinn í Reykjanesbæ. En álversandstæðingar Sólar á Suðurnesjum eru á öðru máli.

Það er óhætt að segja að það blási byrlega fyrir stuðningsmenn álvers í Helguvík eftir orkusamninga sem undirritaðir voru í gær. Andstæðingar álversins úr Sól á Suðurnesjum eru hins vegar á öðru máli og segja hart fram gengið og reynt að klára málið án þess að íbúar fái nokkuð um það að segja.

Baráttunni sé þó ekki lokið. Enn sé hægt að kjósa um álverið ef fólk sé tilbúið að hugleiða þann valkost. Það sé mikill þrýstingur um það, meðal annars frá Morgunblaðinu.

Aðspurður segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, ólíklegt að eitthvað komi í veg fyrir að álver rísi í Helguvík. Umhverfismat vegna álversins líti vel út og það verði kynnt þegar það verði tilbúið. Ætlunin sé að leggja jarðstreng frá Fitjum sem sé meginæðin inn á Helguvíkursvæðið.

Talskona Sólar á Suðurnesjum segir baráttuna ekki fáranlega þrátt fyrir að allt að 1100 störf geti skapast í tengslum við álverið. Störf séu í boði annars staðar. Það vanti 200-300 störf í Bláa lónið og þá skapist 70-100 störf á ári í flugstöðinni. Nóg sé um að vera á Reykjanesi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×