Nýjustu hagtölur bresku hagstofunnar benda til að verðbólga hafi mælst 3,1 prósent í Bretlandi í síðasta mánuði. Þetta er þvert á væntingar enda hefur verðbólga ekki verið hærri í áratug. Þetta þykir sömuleiðis nokkur skellur fyrir Englandsbanka sem ákvað fyrir tæpum hálfum mánuði að halda stýrivöxtum óbreyttum í 5,25 prósentum.
Verðbólgutölurnar koma Bretum í opna skjöldu enda jókst hún um 0,5 prósentustig á milli mánaða. Breska ríkisútvarpið segir Mervyn King, seðlabankastjóra Englandsbanka, verða að gera stjórnvöldum grein fyrir því hvers vegna verðbólga hafi vaxið svo mikið á milli mánaða. Þetta mun vera fyrsta bréfið sem seðlabankastjóri hefur skrifað stjórnvöldum síðan bankanum var falin peningamálastjórn í Bretlandi árið 1997.
Helsta ástæðan fyrir svo hárri verðbólgu er styrking breska pundsins, sem hefur ekki verið jafn hátt gagnvart bandaríkjadal síðan árið 1992. Af þessum sökum hafa Bretar í auknum mæli farið í innkaupaferðir til Bandaríkjanna. Á móti hefur styrkingin komið illa fyrir útflutningsfyrirtæki.
Mjög líklegt er talið að stýrivextir verði hækkaðir um 25 punkta í næsta mánuði til að koma böndum á verðbólguna. Ekki er útilokað að Englandsbanki hækki stýrivextina umfram það eða hækki þá jafnt og þétt á næstu mánuðum.