Handbolti

Átta marka tap gegn Frökkum

Ólafur Stefánsson skoraði átta mörk í dag.
Ólafur Stefánsson skoraði átta mörk í dag. MYND/Pjetur

Frakkar sigruðu Íslendinga með átta marka mun, 35-27, á æfingamótinu í handbolta sem fram fer þar í landi yfir páskahelgina. Frakkar höfðu tveggja marka forystu í hálfleik en í síðari hálfleik bætti liðið smám saman við forskotið og gáfu Íslendingum fá færi á sér.

Alfreð Gíslason, þjálfari íslenska liðsins, leyfði flestum leikmönnum að spreyta sig í leiknum í dag og var með ákveðna tilraunastarfsemi í gangi á báðum endum vallarins. Staðan í hálfleik í dag var 16-14, heimamönnum í vil.

Ólafur Stefánsson var atkvæðamestur íslenska liðsins í dag og skoraði 8 mörk. Róbert Gunnarsson skoraði 5 mörk, Snorri Steinn Guðjónsson 4 og Guðjón Valur Sigurðsson skoraði 3 mörk.

Íslenska liðið hefur nú tapað báðum leikjum sínum á mótinu, gegn Pólverjum og Frökkum. Ísland mætir Túnis á morgun í leik um þriðja sætið á mótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×