Höfðatún frá Skúlagötu að Borgartúni verður lokað tímabundið vegna framkvæmda við lagnir og innkeyrslumannvirki nýbygginga á Höfðatorgi. Lokanir verða mismiklar eftir því hvaða framkvæmdir eru í gangi hverju sinni, en alls munu þær standa yfir frá 19. mars – 8. ágúst. Fyrst í stað verður einni akrein haldið opinni í hvora átt en frá miðjum apríl til ágúst verður Höfðatúni lokað fyrir allri almennri umferð.
Fyrirhugaðar breytingar hafa verið kynntar fyrir íbúum í nærliggjandi hverfi og farið yfir með hvaða hætti best væri dregið úr óþægindum sem þeir verða fyrir af völdum framkvæmdanna. Aðkoma að einstökum lóðum verður tryggð eins og kostur er.