Hagnaður írska flugfélagsins Aer Lingus nam 90,4 milljónum evra, jafnvirði rétt rúmra 8 milljarða íslenskra króna, fyrir skatta á síðasta ári. Þetta er samdráttur upp á 1,3 prósent á milli ára og skrifast aðallega á hækkun á olíuverði.
Að sögn forsvarsmanna félagsins nam olíukostnaður Aer Lingus í fyrra 200 milljónum evra, jafnvirði 17,8 milljarða íslenskra króna, en það er 44,4 prósenta aukning á milli ára.
Tekjur félagsins á tímabilinu námu 1,16 milljörðum evra, jafnvirði 103 milljarða íslenskra króna, en það er 11,3 prósenta hækkun á milli ára.
Aer Lingus hefur varist yfirtöku írska lággjaldaflugfélagsins Ryanair frá því seint á síðasta ári. Í vörnina hefur flugfélagið varið sem nemur 16 milljónum evra, 1,4 milljarða krónur.