Sir Alex Ferguson notaði tækifærið og hrósaði framherjanum Henrik Larsson eftir sigur Manchester United á Lille í Meistaradeildinni í gærkvöldi. United hefur oft spilað betur en í gær, en eins og oft vill verða þegar mest liggur við, var það Svíinn magnaði sem gerði gæfumuninn.
"Þetta var flottur skalli hjá honum og honum sjálfum til sóma. Það hefur verið reglulega gaman að hafa hann í liðinu og hann er sannur atvinnumaður. Ég væri sannarlega til í að hafa hann lengur í láni, en hann lofaði liði sínu og fjölskyldu að snúa aftur á settum tíma og ég virði þá ákvörðun," sagði Ferguson ánægður, en hann verður nú að sjá á eftir Larsson í burtu í miðri meiðslakrísu eftir að ljóst varð að Louis Saha yrði frá í fjórar vikur og Ole Gunnar Solskjær í tvær til þrjár vikur.