Ætla mætti að Sunnlendingar séu mestu lögbrjótar landsins, en ákærumál miðað við íbúatölu eru tvöfalt fleiri þar en í öðrum landshlutum. Sýslumaðurinn á Selfossi segir að skýra megi þetta með góðri löggæslu og eftirfylgni en bendir þó á að mikil sumarhúsabyggð og gegnumstreymi fólks geti legið að baki.
Í flestum landshlutum virðist býsna gott samræmi á milli íbúafjölda og fjölda ákæra. Þó er hlutfall ákæra heldur lægra en íbúatala segir til um í Reykjavík og á Reykjanesi - en aðeins yfir á Vesturlandi og Norðurlandi Vestra.
Hlutfallslega virðast menn vera löghlýðnastir á Vestfjörðum, á Norðurlandi Eystra og Austurlandi. Suðurland sker sig hins vegra úr. Þar er fjöldi ákæra tvöfalt meiri en íbúatalan segir til um. Á Suðurlandi býr sjö og hálft prósent íbúa - en þar voru til meðferðar dómstóla fimmtán og hálft prósent ákæra.
Meirihluti þessara mála kemur frá Ólafi Helga Kjartanssyni, sýslumanni á Selfossi. Hann segir að þetti sýni að í hans umdæmi sé stunduð afar góð löggæsla og eftirfylgni. Þetta þurfi þó ekki að þýða mikla glæpahneigð sunnlendinga.
Ólafur bendir á að í Árnessýslu sé stór sumarhúsabyggð og yfir sumartímann sé svæðið nánast eins og úthverfi frá Reykjavík. Íbúatalann geti því hækkað um þriðjung yfir sumartímann. Eins skipti máli að mikið gegnumstreymi sé í gegnum suðurland en drjúgur hluti ákærumálanna tengist umferðalagabrotum.