Olaf Mellberg hjá Aston Villa hefur tekið undir orð stjóra síns, Martin O´Neill, og gagnrýnt leikjafyrirkomulagið í ensku úrvalsdeildinni harðlega. Villa léku gegn Reading um síðustu helgi en næsti leikur liðsins er þann 3. mars næstkomandi. Sú staðreynd að 21 dagur sé á milli leikja er merki um glórulausa skipulagningu, segir Mellberg.
“Þetta er mjög undarlegt, sérstaklega í ljósi þess að það er búið að vera mikið álag að undanförnu, auk þess sem landsleikir hafa tekið sinn toll á síðustu vikum. Við höfum spilað tvo leiki í viku í langan tíma en núna kemur allt í einu þriggja vikna hlé. Þetta er glórulaust,” segir Mellberg, en auk þriggja vikna hlésins á milli leikja eru heilar sex vikur þangað til að Aston Villa spilar sinn næsta leik á heimavelli.
“Þegar þetta hlé er búið verður aftur mikið álag, fullt af deildarleikjum í bland við tvo landsleiki með stuttu millibili. Þetta er mjög undarlegt,” segir Mellberg.