Óvenju lítil umferð var á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt og var ekki tilkynnt um nein umferðaróhöpp. Lögregla rekur litla umferð til þæfings færðar, einkum í íbúðagötum, þar sem ljóst má vera af snjólagi á mörgum bílum að þeir hafi lítið sem ekkert verið hreyfðir um helgina.
Búist er við að margir lendi í vandræðum við að komast út úr bílastæðum nú í morgunsárið. Allar helstu þjóðleiðir voru færar í gærkvöldi, en í nótt snjóaði talsvert á Akureyri þannig að búast má við að færð á fjallvegum fyrir norðan hafi eitthvað spillst í nótt.