Hluti af dagskrá Sequences fer fram í Regnboganum, Hverfisgötu 54, í dag og á morgun. Í dag verður það listfélagsskapurinn Lortur sem stígur á svið með stuttmyndadagskrá og sérlegan leynigest.
Bjarni Sigurbjörnsson, betur þekktur sem Bjarni massi, er meðlimur í Lorti. „Lortur er félagsskapur sem upphaflega var stofnaður í kringum kvikmyndagerð en hefur tekið nokkrum breytingum á liðnum árum. Meðlimir hafa farið í ýmsar áttir í sinni listsköpun og því er Lortur farinn að láta til sín taka á ólíkum listsviðum," segir Bjarni.
Dagskráin sem Lortur býður upp á í Regnboganum eru stuttmyndir með myndlistarívafi, að sögn Bjarna.
„Við ætlum þarna að sýna verk sem við höfum unnið nýlega. Þetta eru stuttar myndir sem falla þó kannski ekki beint í þetta hefðbundna stuttmyndaform. Þær eru fremur á mörkum kvikmyndagerðar og myndlistar. Sýndar verða myndir eftir mig og mynd eftir Kristján Loðmfjörð sem hann vann sem útskriftarverkefni frá myndlistarskóla í Hollandi. Svo verður vel þess virði að sjá framlag leynigestsins þar sem hann er enginn annar en rithöfundurinn góðkunni Huldar Breiðfjörð, en hann útskrifaðist úr kvikmyndagerðarnámi í New York nú í vor."

„Verkið heitir „Once again I have fallen into my feminine ways". Þetta er ljóðræn og dramatísk vídeóstuttmynd um par sem lendir í hremmingum. Lára Sveinsdóttir og Daníel Björnsson leika parið og ég leik persónuna „Techno-witch".
Myndin er unnin upp úr gjörningi sem ég framdi í Leikhúsi listamannins í Klink og Bank á sínum tíma," segir Ásdís.
Það er ekki á hverjum degi sem myndlist er sýnd í bíó, en það leggst vel í Ásdísi. „Vídeóverk eftir mig var reyndar sýnt í Regnboganum í fyrra. Þá var ég með gjörning fyrir sýningu verksins, en ég sleppi því núna. Það var samt afskaplega skemmtilegt; fólk var með popp og kók og mikil bíóstemning ríkti."
Aðrir listamenn sem sýna verk sín á þriðjudag eru Sigtryggur Berg Sigmarsson og Carsten Aaschmann, Jóhannes Atli Hinriksson, Marthe Thorshaug, Baldur Björnsson og Anna Lind.
Viðburðirnir hefjast kl. 17 báða dagana og er aðgangur að þeim ókeypis.