Fótbolti

Höfum ekkert heyrt frá Barcelona

Eiður Smári og Ronaldinho eru mestu mátar eins og sjá má.
Eiður Smári og Ronaldinho eru mestu mátar eins og sjá má. nordic photos/afp
Koma Thierry Henry til Barcelona hefur glætt þeim sögusögnum að Eiður Smári Guðjohnsen sé á leið frá félaginu nýju lífi. Hann er sem fyrr orðaður við fjöldamörg félög í ensku úrvalsdeildinni þar sem hann lék með Chelsea um árabil. Arnór Guðjohnsen, faðir og umboðsmaður Eiðs Smára, gat lítið sagt um framtíð hans.

„Ég hef ekki hugmynd um hvort þetta breyti einhverju hvað varðar Eið Smára," sagði Arnór í samtali við Fréttablaðið. „Við höfum alla vega ekkert heyrt neitt frá neinum þannig að við erum bara rólegir."

Hann segir að það hafi aldrei komið til tals að yfirgefa Barcelona eins og stendur. Eiður er nú nýbyrjaður í sumarfríi.

Undirbúningstímabilið í Englandi hefst hins vegar snemma í næsta mánuði og má því búast við að félög þar vilji ganga frá sínum leikmannamálum sem allra fyrst.

Meðal þeirra félaga sem hafa helst verið orðuð við Eið Smára eru Englandsmeistarar Manchester United, Newcastle og Ports­mouth ásamt West Ham og Sunderland. Líklegt verður þó að teljast að Eiður Smári vilji leika með liði sem spilar í Meistaradeild Evrópu og er því Manchester United líklegasti kosturinn af ofantöldum liðum. -esá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×