Rafael Benitez segir að hafi verið Brad Friedel að kenna - ekki Peter Crouch - að Liverpool fór ekki með þrjú stig af hólmi frá Ewood Park í Blackburn í dag. Crouch fékk þrjú úrvals skallafæri sem öll rötuðu beint á Friedel í marki Blackburn.
"Þegar þú ert fyrir framan markið og nærð ekki að stýra sköllunum fram hjá markmanninum, þá er það ekki skortur á sjálfstrausti," sagði Benitez aðspurður eftir leikinn, en Crouch hefur mátt þola að verma varamannabekkinn að undanförnu en fékk tækifæri í byrjunarliðinu í dag.
"Ég held að þetta sé miklu frekar spurning um heppni hjá markverðinum að vera rétt staðsettur. Mér fannst Friedel eiga mjög góðan dag," sagði Benitez, en Liverpool var mun sterkari aðilinn í leiknum en náði ekki að nýta neitt af mörgum góðum færum.