Michael O'Leary, forstjóri írska lággjaldaflugfélagsins Ryanair, hefur hvorki viljað segja af né á hvort flugfélagið ætli að hækka yfirtökutilboð sitt í írska flugfélagið Aer Lingus. Yfirtökutilboðið hljóðar upp á 1,48 milljarða evrur eða um 136 milljarða krónur en hluthafar hafa fram til morgundags til að ákveða hvort þeir taki því.
Á blaðamannafundir Ryanair í Dublin á Írlandi í morgun viðurkenndi O'Leary, að hann teldi ólíklegt að hluthafar Aer Lingus muni taka tilboði Ryanair. Hann neitaði hins vegar að svara því hvort yfirtökutilraunirnar væru hans stærstu mistök á ferlinum og sagðist geta sofið ágætlega.

