Sport

Hugi frá Hafsteinsstöðum í Húsdýragarðinum

Stóðhesturinn Hugi frá Hafsteinsstöðum er kominn til vetrardvalar í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í Laugardal. Hann er fæddur Hildi Claessen á Hafsteinsstöðum árið 1991 og er því á 16. vetri. Hugi er undan Hrafni frá Holtsmúla og Sýn frá Hafsteinsstöðum og er rauðblesóttur glófextur á lit. Hann er í eigu Hrossa-ræktarsambands Austurlands, Sigurðar Sigurðarsonar, Magnúsar Andréssonar, Skapta Steinbjörnssonar og Hildar Claessen.

Hæstu einkunn í kynbótadómi hlaut Hugi á Landsmóti árið 1998. Þá hlaut hann í aðaleinkunn 8,31, fyrir sköpulag 8,13 og fyrir hæfileika 8,49.

Á landsmóti árið 2006 hlaut Hugi heiðursverðlaun fyrir afkvæmi sín og með dómnum fylgdu eftirfarandi dómsorð. "Afkvæmi Huga eru fremur stór. Höfuð er skarpt en langt og frekar gróft, hálsinn reistur og langur en djúpur við háar herðar. Yfirlínan öflug, bolurinn langvaxinn en þrekinn. Sinar eru öflugar en sinaskil lítil og afturfætur nágengir, hófar efnisþykkir. Prúðleiki er úrvalsgóður. Meirihluti afkvæmanna eru klárhross með rúmu lyftingargóðu tölti og brokki en stundum skrefstuttu. Stökkið er ferðmikið og hátt, viljinn góður og afkvæmin fara vel með góðum fótaburði. Hugi gefur reisuleg, fasmikil og hágeng hross."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×