Kúrdiska konan var drepin með einu skoti í hnakkann, þar sem hún kraup á barmi fjöldagrafarinnar, með líflaust ungbarn sitt í fanginu. Í fjöldagröfinni voru lík tuttugu og fimm kvenna og níutíu og átta barna þeirra.
Þannig lýsti bandarískur réttarmeinafræðingur fjöldagröf sem fannst í Ninveh héraði í Írak, við réttarhöldin yfir Saddam Hussein í dag. Sonny Trimble, er formaður alþjóðlegrar sveitar meinafræðinga, sem undanfarin tvö ár hafa rannsakað fjöldagrafir fórnarlamba Saddams.
Trimble sagði að þeir hefðu fundið lík hundruða kvenna og barna í þrem fjöldagröfum sem þeir hafi rannsakað, í suður og norðurhluta landsins. Auðséð væri að það hefði verið gengið skipulega til verks. Konurnar hefðu verið reknar út úr þorpum sínum og út á auð svæði, þar sem stórvirkar vinnuvélar grófu fjöldagrafir.