Heimsmarkaðsverð á hráolíu lækkaði lítillega í dag þrátt fyrir að OPEC, samtök olíuútflutningsríkja, hefðu ákveðið að draga úr olíuframleiðslu frá og með deginum í dag til að sporna gegn frekari verðlækkunum á olíu.
Greiningaraðilar draga í efa að einhugur sé um ákvörðunina hjá aðildarríkjunum 11, sem felur í sér að olíuframleiðsla dregst saman um 1,2 milljónir tunna á dag. Það er nokkru meira en búist var við.
Hráolíuverð lækkaði um 14 sent á markaði í New York í Bandaríkjunum og stendur nú í 58,59 dölum á tunnu. Verð á Norðursjávarolíu lækkaði um 12 sent á markaði í Lundúnum í Bretlandi og fór í 58,91 dal á tunnu.
Heimsmarkaðsverð á hráolíu fór í methæðir um miðjan júlí og stóð þar í mánuð. Um miðjan ágúst tók verðið að lækka á ný og hefur nú lækkað um heil 20 prósent frá því það fór í hæstu hæðir.