Stjórnendur rússnesku álfyrirtækjanna Rusal og Sual og forstjóri svissneska álfyrirtækisins Glencore greindu frá því í Moskvu í Rússlandi í dag að fyrirtækin hefðu ákveðið að sameinast um álframleiðslu. Með sameiningunni hefur Alcoa verið velt úr sessi sem stærsti álframleiðandi í heimi.
Rusal á 66 prósent í sameinuðu félagi en fyrirhugað er að skrá það í kauphöll Lundúna í Bretlandi innan 18 mánaða.
Þriðja stærsta álfyrirtæki á eftir Alcoa er kanadíska fyrirtækið Alcan. Richard Evans, forstjóri þess, sagði í samtali við breska ríkisútvarpið að þrátt fyrir að sætaskipti hafi orðið á stærstu álfyrirtækjum í heimi þá bæru Alcoa og Alcan enn höfuð og herðar yfir hið nýja sameinaða fyrirtæki á sviði álbræðslu.