Christian Streiff, forstjóri evrópska flugvélaframleiðandans Airbus, hefur hótað að segja upp fái hann ekki heimild frá stjórn móðurfélagsins, EADS , til að endurskipuleggja í rekstri fyrirtækisins.
Orðrómur hefur verið uppi um að Streiff hafi þegar afhent uppsagnarbréf sitt en stjórn EADS vísar því á bug.
Stjórn EADS mun hafa gefið grænt ljós á nokkrar af hugmyndum hans um endurskipulagningu í síðustu viku. Enn á hinsvegar eftir að finna út úr því hvernig hægt verði að skera niður rekstrarkostnað um 30 prósent. Slíkt mun hafa í för með sér uppsagnir á starfsfólki í Frakklandi og Þýskalandi.
Þýska ríkið, sem er stór hluthafi í EADS, er mótfallið uppsögnum en líklegt þykir að þær verði hvað mestar í Hamborg. Búist er við að einhver niðurstaða náist næstkomandi fimmtudag en þá munu ráðherrar frá Þýskalandi og Frakklandi ræða saman um hagræðingartilraunir Airbus.