Franska dagblaðið L´Est Republicain greinir frá því í morgun að Osama bin Laden, leiðtogi al Kaída hryðjuverkasamtakanna, sé látinn. Þetta er haft upp úr leyniþjónustuskýrslu sem mun hafa verið lekið í blaðið.
Fulltrúi franska varnarmálaráðuneytisins segist ekki geta staðfest að þetta komi fram í skýrslunni. Rannsakað verður hver lak henni í blaðið.
Samkvæmt upplýsingum blaðsins mun bin Laden hafa dáið úr taugaveiki í Pakistan. Talsmaður stjórnvalda í Islamabad segir engar slíkar upplýsingar hafa borist þeim frá erlendum leyniþjónustum, sem væri venjan í málum af þessu tagi.