Heimsmarkaðsverð á hráolíu hækkaði lítillega á helstu mörkuðum í dag og fór nálægt 66 bandaríkjadölum á tunnu. Þar með var endir bundinn á samfelldar lækkanir á olíuverði síðastliðna sex daga.
Verð á hráolíu, sem afhent verður í næsta mánuði, hækkaði um 25 sent á markaði í New York í Bandaríkjunum og fór í 65,86 dali á tunnu en verðið hefur lækkað um 4 prósent á markaðnum vestra síðastliðna daga.
Þá hækkaði verð á Norðursjávarolíu um 20 sent á markaði í Lundúnum í Bretlandi og fór í 64,75 dali á tunnu.
Hráolíuverðið fór undir 65 dali til skamms tíma í gær en það er lægsta verðið sem sést hefur síðan í marslok á þessu ári.