Hæsta træ landsins er að finna í Hallormsstaðaskógi en það er alaskaösp sem er 24,2 metrar á hæð eftir því sem fram kemur í Sunnlenska fréttablaðinu.
Þar segir að nemendur við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri hafi heimsótt alla stærstu skóga landsins og mælt hæð hæstu trjáa á hverjum stað. Komust þeir að því að hæsta tré landsins væri sitkagreni á Kirkjubæjarklaustri en það reyndist 23,7 metrar að hæð. Þessi niðurstaða kom Arnóri Snorrasyni, sérfræðingi á Mógilsá, á óvart því í fyrra mældist alaskaösp í Múlakoti einnig 23,7 metrar.
Þetta þótti Austfirðingum súrt í broti og síðastliðinn þriðjudag sendi Þór Þorfinnsson, skógarvörður á Hallormsstað, sitt fólk til mælinga í skóginum. Fannst þá fyrrnefnd alaskaösp sem reyndist hálfum metra hærri en hin trén tvö. Það var Sigurður Blöndal sem gróðursetti öspina árið 1970 en hún hafði ekki verið mæld áður.