Allt er nú með kyrrum kjörum á Kárahnjúkasvæðinu eftir mótmæli síðustu daga. Síðustu mótmælendurnir voru fluttir frá búðunum við Lindir í gær og niður á Egilsstaði. Óskar Bjartmarz, yfirlögregluþjónn á Egilsstöðum, segir að flutningur fólksins hafi gengið vandræðalaust fyrir sig en allur hópurinn, um tólf manns, var fluttur á Egilsstaði. Það eru því engar búðir við Lindir núna og segir Óskar að lögreglan muni fylgjast með hvort mótmælendur fari á Kárahnjúkasvæðið á ný til að mótmæla. Flestir mótmælandanna eru útlendingar og telur Óskar að þeir séu enn á Egilsstöðum eða nágrenni, en búnaður fólksins er enn í haldi lögreglunnar.
Engir mótmælendur á Kárahnjúkasvæðinu
