Þrír Kanadamenn, sem björguðust úr sjóslysi við Viðey árið 1944, eru nú staddir hér á landi til að heiðra minningu Íslendingsins sem bjargaði þeim, ásamt 195 félögum þeirra, úr sökkvandi skipi.
Tuttugu Kanadamenn eru nú staddir hér á landi vegna minningarathafnarinnar, þrír af þeim sem björguðust þegar kanadíski tundurspillirinn Skeena strandaði við Viðey í aftakaveðri í október 1944. Auk þeirra eru aðstandendur manna sem voru á skipinu og fulltrúar kanadíska sjóhersins.
Ástæðan fyrir því að þeir eru hér nú er sú að Einar Sigurðsson, sem að öðrum ólöstuðum á heiðurinn af björgun 198 manna af Skeenu fyrir 62 árum, hefði orðið hundrað ára í dag.
Guðrún, Dóttir Einars, var einnig viðstödd minningarathöfn í Viðey, hún var átta ára þegar slysið varð en man það eins og það hafi gerst í gær.
Tom Maidmant er 82 ára, bundinn í hjólastól og þjakaður af lungnakrabbameini. Hann skeytti engu um viðvaranir læknis, heldur kom til Íslands til að heiðra minningu bjargvættar síns og dreifa ösku skipsfélaga síns sem nú er nýlátinn.