Sjálfstæðismenn taka við valdataumum í borginni eftir kosningar samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar Fréttablaðsins.
Framsóknarflokkurinn mælist með tæplega fjögurra prósenta fylgi og nær samkvæmt því ekki inn manni. Sjálfstæðisflokkur fengi nær helming atkvæða og átta af fimmtán borgarfulltrúum. Frjálslyndir stórauka fylgi sitt og mælast með átta prósenta fylgi og ná samkvæmt því einum manni inn í borgarstjórn. Samfylkingin fengi tæp þrjátíu prósent og fimm borgarfulltrúa. Vinstri grænir fengju rúm níu prósent samkvæmt könnuninni og einn borgarfulltrúa.
Ólafur F. Magnússon, oddviti Frjálslyndra og óháðra, er afar ánægður með niðurstöðuna. Hann telur þó að flokkurinn eigi enn inni fylgi. "Ég minni á daginn sem kosið var 2002 var F-listi með þriggja prósenta fylgi í skoðanakönnun Fréttablaðsins í byrjun dags og við enduðum daginn með sex prósent." Hann segir stefnuna núna setta á að fá Margréti K. Sverrisdóttur, 2. mann á lista frjálslyndra, inn í borgarstjórn.