Ljósmyndasýningin ,,Skrásetning kynslóðar“ verður opnuð í Borgarbókasafninu í Grófarhúsi á morgun kl. 17. Þar sýnir Björn M. Sigurjónsson portrett af ungum íslenskum rithöfundum og listamönnum.
Allt eru þetta höfundar sem hafa gefið út undir merkjum Nýhils, en eiga það jafnframt sammerkt að hafa vakið athygli fyrir framsækna og nýja sýn í listsköpun sinni. Myndirnar eru teknar í vistkerfum skáldanna – á heimilum þeirra, þar sem sköpunarverkin þeirra verða einnig til.
Á opnun sýningarinnar verður dagatal fyrir árið 2007 með úrvali sömu ljósmynda kynnt. Þá munu skáldin lesa upp úr nýlegum verkum sínum.
Þetta er önnur einkasýning Björns á þessu ári og í þriðja sinn sem hann sýnir myndir sínar opinberlega. Sýningin er opin á opnunartíma Borgarbókasafnsins fram í janúar.