Benedikt sextándi páfi er staddur í Tyrklandi þar sem hann hvetur til samræðu og „bræðralags“ milli kristinna manna og múslima. Eitt af markmiðum ferðarinnar er að draga úr reiði múslima vegna umdeildrar ræðu í sumar, sem margir skildu sem gagnrýni á íslamstrú.
Páfi hitti í gær meðal annarra Ali Bardakoglu, æðsta klerk múslima í Tyrklandi, sem á sínum tíma var meðal þeirra sem hvað harðast gagnrýndu páfa fyrir ræðuna í sumar.
Að loknum fundi þeirra í gær sagði Bardakoglu að útbreidd hræðsla við múslima væri skaðleg öllum múslimum: „Hin svokallaða sannfæring um að sverðið sé notað til þess að breiða út íslam og vaxandi hræðsla við íslam skaðar alla múslima.“
Páfi hitti einnig í gær Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, sem á síðustu stundu ákvað að taka á móti páfa á flugvellinum við komu hans til landsins. Erdogan hafði áður ekki sagst vilja hitta páfa.
Páfi leggur mikla áherslu á frið og trúfrelsi í ferð sinni. Hörð mótmæli hafa verið í Tyrklandi síðustu daga gegn heimsókn páfa og óttast sumir um líf hans í ferðinni.
Athygli vakti að þekkt tyrknesk leikkona, Serra Yilmas, hefur það hlutverk að vera túlkur páfa í heimsókninni. Hún hefur leikið í ítölskum kvikmyndum og er líklega þekktust fyrir leik sinn í myndinni Fáfróðir álfar, þar sem hún leikur tyrkneskan innflytjanda á Ítalíu sem kemst þar í kynni við hóp samkynhneigðra.