Menning

Forskot á flóðið árlega

Fjórar bækur eru væntanlegar frá forlaginu Bjarti á morgun. Guðrún Vilmundardóttir útgefandi var nýkomin með eintak af einni þeirra í hendur.
Fjórar bækur eru væntanlegar frá forlaginu Bjarti á morgun. Guðrún Vilmundardóttir útgefandi var nýkomin með eintak af einni þeirra í hendur. MYND/GVA

Nú er annatími hjá útgefendum sem þeysast milli bæjarhluta með handrit og útprent. Orðin og sögurnar dælast úr prentvélum yfir í plastvélar og rata loks í hillur verslana þar sem lesendur bíða spenntir eftir jólabókunum.

Ekki er ráð nema í tíma sé tekið að koma bókunum út því að sögn Guðrúnar Vilmundardóttur, útgefanda hjá forlaginu Bjarti, eru óþolinmóðir lesendur farnir að hringja og reka á eftir sumum þeirra. Í síðustu viku komu út þrjár ljóðabækur hjá forlaginu sem og dágott úrval af spennandi barnabókum og þýðingum en á morgun bætast við fjórar íslenskar skáldsögur. Guðrún útskýrir að sögur þær séu allar eftir kunnuglega höfunda sem hafi gefið út hjá forlaginu áður en nú rói þeir á ný mið.

Ólánspiltur í eltingarleik
Skáldsagan Laugardagur Saga Ians McEwan er meðal þýðinganna sem koma út hjá Bjarti. Þýðandi hennar er Árni Óskarsson.
Fyrst ber þar að nefna höfundinn Jökul Valsson sem stimplaði sig inn í bókmenntalandslagið með hrollvekjunni Börnin í Húmdölum fyrir tveimur árum. „Jökull gefur út söguna Skuldadagar sem er spennusaga en þó ekki reyfari,“ segir Guðrún. Þar segir af ólánsdreng sem sífellt ætlar sér að redda málunum fyrir helgina en týnir eiturlyfjum sem hann hyggst selja. „Úr verður mikill eltingarleikur því raunverulegir eigendur góssins eru alls ekki lukkulegt lið. Þetta er bæði fyndin og þrususpennandi bók,“ segir Guðrún. Raunverulegar hremmingarLánið eltir heldur ekki aðalpersónu bókar Eiríks Guðmundssonar sem einnig gefur út sína aðra bók hjá Bjarti. „Þetta er fyrsta skáldsagan hans en hann gaf út bók í svörtu línunni okkar fyrir tveimur árum,“ útskýrir Guðrún og áréttar að sagan sé nokkuð „Eiríks-leg“ og rödd söguhöfundarins kunnugleg í völdum köflum hennar. „Sagan sú fjallar um mann sem á í vanda með að greina milli skáldskapar og veruleika. Hann verður fyrir þeirri stórkostlegu tragedíu að missa póstkort út um gluggann. Þá lendir allt í handaskolum eins og þeir vita sem lent hafa í sambærilegum hremmingum.“ Steinn spæjari og MuggurRithöfundurinn Steinar Bragi er iðinn við kolann, nú kemur út hans sjötta bók hjá Bjarti en á árinu gaf hann einnig út bók í seríu Nýhil forlagsins, Norrænar bókmenntir. „Þetta er fjórða skáldsagan hans en í henni eru bæði gamalkunnug efnistök sem aðdáendur hans þekkja og alveg nýr tónn því bókin, Hið stórfenglega leyndarmál heimsins, er spæjarasaga. Aðalpersónur bókarinnar eru hinn mikli leynispæjari Steinn Steinarr og aðstoðarmaður hans Muggur Maístjarna en sögusviðið er stórfenglegt skemmtiferðaskip sem heitir Heimurinn,“ útskýrir Guðrún og tekur undir að sagan gæti flokkast sem táknsaga og að höfundurinn sé lítt að linast með árunum. Gaddavír og girðingarFjórða bókin er saga Sigurjóns Magnússonar, Gaddavír, en höfundur hennar hefur meðal annars sent frá sér bækurnar Góða nótt, Silja og Hér hlustar aldrei neinn. „Þetta er knöpp saga og meitluð,“ segir útgefandinn og bætir því við að Sigurjón sé mjög áleitinn höfundur. Í bókinni segir frá óhuggulegum atburðum á bóndabæ sem fortíðin hvílir á eins og skuggi en misgerðir hennar eru afhjúpaðar smám saman. „Sagan er fallega sögð og rakin aftur í tímann. Maður situr alveg stjarfur yfir þessari bók – þar er ólga undir hverju orði.“ HliðarbúgreinarBjartur fer ekki aðeins mikinn á bókmenntavellinum heldur hefur forlagið líka fært sig upp á skaftið því á dögunum kom út fyrsti hljómdiskurinn á vegum þess. Diskurinn Magga Stína syngur Megas ber nafn sitt með rentu en útgáfutónleikar Möggu Stínu verða í Salnum annað kvöld eins og til að kóróna þennan margfalda útgáfudag. „Dótturfyrirtækið Bjartur Records Limited gefur diskinn út en til þess var stofnað sérstaklega vegna þess að þarna er gæðaefni á ferð,“ segir Guðrún sposk en bætir við að óvíst sé um frekari tónlistarútgáfu. „Það verður þó tekið til vandlegrar skoðunar.“





Fleiri fréttir

Sjá meira


×