Jóhann Þórhallsson segist vera spenntur fyrir því að ganga í KR á nýjan leik en hann lék með Grindvíkingum í sumar. Grindavík féll og varð snemma ljóst að Jóhann vildi söðla um og spila áfram í úrvalsdeildinni. Hann er enn samningsbundinn Grindavík en getur farið fram á að verða lánaður og svo rift samningnum eftir ár.
„Það eru í raun tvö lið sem koma til greina hjá mér en KR-ingar eru langheitastir. Ég er líka mjög spenntur fyrir KR og tel að það séu spennandi tímar framundan í Vesturbænum,“ sagði Jóhann við Fréttablaðið. Jónas Kristinsson formaður KR Sports staðfesti við Fréttablaðið í gær að viðræður eiga sér stað við knattspyrnudeild Grindavíkur um Jóhann.